YFIRBURÐARFÓLK

Egill Eðvarðsson
February 13, 2024

Kynnti fyrir ykkur Ken Currie í síðasta Mola, skoska málarann, sem stundum hefur verið kallaður meistari ljótleikans (sjálfum hefur mér reyndar hlotnast sá vafasami heiður að vera kallaður “riddari ljótleikans” í blússandi ritdómi um sjónvarpskvikmyndina mína Djáknann 1988). Og þar sem ég fletti nokkru síðar upp í gömlum gögnum sá ég svart á hvítu hvað ég halla mér öðru hvoru ljúflega að meistara Currie eins og í myndskreytingu á kápu fyrir tímarit Hugvísindastofnunar, RITIÐ (1. tölublað 2022)), sem ég vann fyrir þáverandi ritstjóra, “dóttur” mína SIGRÚNU MARGRÉTI (er giftur Kristínu Jórunni, móður hennar) og jafnvel á síðasta ári, þegar ég myndskreytti forsíðu bókar Sigrúnar, HÚSIÐ OG HEILINN… bók sem “rís upp úr” doktorsritgerð hennar um reimleikahúsin í kvikmyndinni Shining og þrem íslenskum “hrollvekjum”, Húsinu 1983 (finnst ég kannast eitthvað við þá mynd), Ég man þig 2017 og Rökkur 2017” auk bókar Steinars Braga, Hálendið 2011. Já Currie er hér ekki langt undan!

En talandi um hönnun forsíðna og bókakápa (jafnvel hljómplatna), sem ég hef alltaf öðru hvoru dottið inn í í gegnum tíðina og haft mikið gaman að þá eigum við Íslendingar aðeins einn yfirburðarmann á þessu sviði nefnilega RAGNAR HELGA ÓLAFSSON. Kápur bóka eins og Aflausn (Yrsa), Jarðnæði (Oddný Eir), Jón lærði (Viðar Hreinsson…


bók gefin út af Lesstofunni, bókaútgáfu Sigrúnar minnar), Stolið frá höfundi stafrófsins (Davíð Oddsson) og nú síðast Snjór í Paradís (Ólafur Jóhann) eru allar dæmi um snilldar kápugerð Ragnars. Ein er þó sú bók, sem ég held mest uppá hvað varðar bókarkápu en sömuleiðis alla bókargerð og það er Tímaritröð 1005-hópsins, IOOV, þar sem Ragnar Helgi slær marghljóma tón, sem er aldeilis einstakur. Hef alla tíð frá því að ég eignaðist fyrstu bókina haft hana hjá mér á vinnustofunni til að minna mig á hvað sáraeinföld hugmynd og enn látlausari útfærsla getur… gert galdurinn!