LARRY

Egill Eðvarðsson
January 29, 2024

Er að lesa ævisögu Larry Rivers, WHAT DID I DO (Harper Collins, 1992). Hef reyndar gluggað í hana alltaf öðru hvoru frá því að ég eignaðist hana um síðustu aldamót, en aldrei beint klárað. Erfitt að lesa svona brotakennda (brokkgenga) bók nema með löngum hléum. Þarna er jú allt að gerast… og flest gjörsamlega crazy!

Larry var uppáhalds málarinn minn frá því ég var ungur myndlistarnemi í Bandaríkjunum og lengi vel… og í reynd algjörlega ógleymanlegt augnablikið þegar ég stóð andspænis tengdamóður hans Berdie (tvöfaldri) á Whitney í NY vorið 1968 (55 árum áður en ég fór sjálfur að sjá allt tvöfalt).

Seinna átti ég eftir að hitta kappann og reyna að ræða við hann um myndlist og sérstaklega myndverkin hans og þessa sérstöku nálgun þar sem auður flötur myndanna virðist jafn mikilvægur og sá sem málaður er. Þetta var á klúbb á NY í mars 1984 eða ´85 þar sem hann var að spila með bandinu sínu Climax Band og söngkonunni Phoebe Legere. Larry var viðræðugóður mjög, en ófáanlegur að tala um myndlist. “ART IS DEAD”, sagði hann… “but music will always be there”! Fannst sjálfum ekki mikið til um hljóðfæraleik hans og hljómsveitarinnar og allra síst hreif söngkonan mig, sem drakk ótæpilega baksviðs í pásunni á meðan barnsmóðir Larry gaf barni þeirra brjóst og keðjureykti Kool-sígarettur. Finnst enn gaman að fletta upp í Larry og skoða (sum) verkin hans, en annars hefur hann heldur fjarlægst með árunum, blessaður.