KEN CURRIE

Egill Eðvarðsson
January 31, 2024

Í göngufjarlægð frá Regent Street í London er gata, sem lætur lítið yfir sér. Heitir Cork Street. Var einu sinni vel þekkt fyrir verkstæði margra helstu klæðskera borgarinnar, sem nú hafa fyrir löngu komið sér fyrir í annarri götu ekki langt frá… nefnilega Savile Row. Savile Row þekkja mörg okkar hins vegar kannski betur fyrir úti konsertinn fræga, þegar Bítlarnir komu sér fyrir uppi á húsþaki einnar byggingarinnar, þeirrar númer 3 (þar sem voru fyrir höfuðstöðvar fyrirtækis þeirra Apple) og fluttu okkur lög af væntanlegri hljómplötu, Let it be, þann 30. janúar 1969, þar til lögreglan stöðvaði uppákomuna, sem hún sagði að væri í fullkomnu leyfisleysi og “truflaði” nærstadda.

En það að ég minnist á Cork Street, sem í dag er þekktust fyrir frábær myndlistargallerí, er vegna þess að þar kynntist ég enn einum myndlistarmanni, sem hefur haft mikil og varandi áhrif á mig í gegnum tíðina… nefnilega skoska snillingnum, Ken Currie. Þegar ég gekk þar inn á sýningu á verkum hans að því er að mig minnir í Raab Boukamel-galleríinu 1996, varð ég gjörsamlega bergnuminn. Þvílíkar myndir, þvílíkar stúdíur… þvílíkt “fallegur”  ljótleiki/óhugnaður… algjör snilld ef snilld er þá til!

Enginn annar seinni tíma myndlistarmaður hefur að mínu áliti málað eins áhrifamiklar portrett-myndir og hann nema ef væri annað ofurmenni, sem líka sýndi í Cork Street á sínum tíma, Francis Bacon.

Kannski setti meistari Picasso tóninn fyrir báða þessa snillinga, en  í tilfelli Currie valdi hann sér viðfangsefni, sem sannarlega teljast  óvænt og óvenjuleg enda flest fyrirhitt í ísköldum, niðurrigndum  líkhúsum.

Currie var hins vegar hinn viðkunnanlegasti allur og hlýr, en þó með  þessi kviku, vökulu augu, sem horfa ekki bara á mann heldur inn í mann… og auðveldlega geta breytt megnasta ljótleika í tóma fegurð!