DAVID HOCKNEY

Egill Eðvarðsson
February 18, 2024

DAVID HOCKNEY

Held áfram að minnast ýmissa þeirra myndlistarmanna, sem haft hafa áhrif á mig í gegnum tíðina, en einn þeirra og sá sem ég ber hvað mesta virðingu fyrir er snillingurinn DAVID HOCKNEY (1937- ). Kynntist honum fyrst þegar hann var að mála sundlaugamyndirnar sínar í góða veðrinu í Kaliforníu í den. Mála gárur eða gusur á vatnsyfirborði (The Splash 1966, A Bigger Splash 1967), já, vatn í gosbrunnum, úr grasúðurum (A Lawn Being Sprinkled 1967) eða  út um bunandi sturtuhausa (A Man In Shower 1964). Elskaði þessar myndir hans… og geri enn. Vorum varla byrjuð að kynnast, þegar við Kristín flugum saman til Parísar í júlí 2017 til að sjá einhverja eftirminnilegustu myndlistarsýningu allra tíma á Pompidou, yfirgripsmestu sýningu á Hockney… eitthvað sem fylgir manni eftir alla ævi, yljar á síðkvöldum og kælir í rjúkandi þurrki og hita (hvenær svo sem þær aðstæður koma nú upp).

Jú, nú man ég… eins og til dæmis við sundlaugarbakkann í Secret Garden á Indlandi, þar sem ég fylgdist með sama fuglinum koma til að baða sig á nákvæmlega sama tíma hvern einasta dag á milli kl 15.50 og 16.10. Gerðist á 5 vikna tímabili bæði árin 2017 og 2018. Tók semsagt daglegt Hockney-Splash á þetta til að kæla sig niður eftir svíðandi hita dagsins. Náði aldrei almennilegum myndum af honum, en náði að greina tegundina, heitir Bulbul (mynd af netinu). Fuglinn hætti að koma, en Hockney er enn að á “gamans aldri”, 86 ára ungmenni… sem bara batnar! Tveir skrautfuglar... Hockney og herra Bulbul!