Nefndi um daginn athugasemd eða ábendingu frá gamla kennaranum mínum Birni Th í Myndlista- og handíðaskólanum í den um að litur sé ekki litur nema við hliðina á öðrum lit. Rifjaðist þá upp texti úr leikverki (aftur um afstæði lita) sem ég vann að fyrir mörgum árum fyrir Sjónvarpið ásamt með góðum vini Hrafni Gunnlaugssyni, þegar leikritið KERAMIK var tekið upp í sjónvarpssal, en þar fyrst kynntist ég öðrum góðum félaga Jökli Jakobssyni, sem lét eina af aðal persónum verksins segja þessa áhugaverðu setningu: HVERNIG ER HÆGT AÐ DREYMA BLÁA HESTA ÞEGAR BLÁIR HESTAR ERU EKKI TIL. Seinna átti ég svo eftir að kalla eitt af málverkunum mínum á sýningu í Norræna húsinu 1982 “Hvernig er hægt…” osvfrv. Og svo við höldum okkur við litagleði, þá er ég þess fullviss að fæst ykkar trúið sögunni um rauðu dúfuna, sem sumarið 1956 sást fljúga um í Gilinu á Akureyri þó með næturstað undir þakskegginu á Amaro-húsinu bakatil.
Já, hún var rauð sú. En öfugt við bláu hestana hans Jökuls, sem ekki voru til, breyttist á einu augabragði, hvít dúfa, sem við Stebbi vinur minn kölluðum Mjallhvíti, í skærrauða dúfu, sem átti þó smám saman eftir að verða fölbleik með haustinu. Þetta var algjört óhapp hjá okkur strákunum… SKRATTAKOLLUNUM. Þessari uppáhalds dúfu okkar ætluðum við að sleppa eftir að hafa alið hana upp (í leyfisleysi) í dúfnakofanum okkar bak við Sultugerð KEA frá því um vorið, en vildum merkja hana áður svo við þekktum hana örugglega ef hún skilaði sér ekki til baka. Lítil rauð doppa skyldi það vera. Doppa á hvítan koll. Pabbi Stebba, Hreiðar Stefánsson barnakennari, átti dýrindis blekbyttu Pelikan 4001 með rauðu bleki í, sem hann notaði til að leiðrétta stíla nemenda sinna. Þarna var komið fyrirtaks merkiblek fyrir Mjallhvíti, ef hún hefði bara ekki barist um á hæl og hnakka þegar við reyndum að halda henni kyrri þannig að hún fékk meira og minna allt blekið yfir sig alla og flaug út í buskann rauðari en allt sem rautt er… þannig að nú, gott fólk, er hægt að dreyma rauðar dúfur því rauðar dúfur eru sannarlega til!