EGILL EÐVARÐSSON er fæddur á Akureyri í október 1947 og lauk þaðan stúdentsprófi áður en hann hélt til myndlistarnáms í Bandaríkjunum árið 1967. Eftir ársdvöl fyrir vestan hélt hann áfram námi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk þaðan prófi árið 1971.

Sama ár tók EGILL áskorun dagskrárstjóra Sjónvarpsins, Jóns Þórarinssonar, um að leiða 2 ára verkefni við mótun stefnu íslenskrar dagskrárgerðar. Úr því spennandi verkefni teygðist meira en ráðgert var og eftir EGIL liggja fjölmörg höfundaverk af vettvangi þess miðils, ýmsar merkar heimildarmyndir og þættir auk leikinna kvikmynda, bæði fyrir sjónvarp og kvikmyndahús þar sem hvað þekktastar eru myndirnar Húsið, og Agnes.

Ferill EGILS hefur ávallt hvílt á þeim grunni sem myndlistin er og hefur hann haldið fjölda sýninga í gegnum árin á Íslandi og víðar. Undanfarin ár hefur hann alfarið helgað sig myndlistinni og teflir nú fram nýjum og ferskum viðfangsefnum sem aldrei fyrr.

Fyrsta einkasýning EGILS var í GALLERÍ SÓLON ÍSLANDUS í Aðalstræti 8 í janúar 1977 þar sem hann sýndi 20 teikningar unnar með blandaðri tækni.

Þar sagði Aðalsteinn Ingólfsson listgagnrýnandi meðal annars. “Snilld EGILS liggur ekki síst í því hversu vel hann notar bakgrunninn sem virkan þátt í myndunum”.

Annar listgagnrýnandi Bragi Ásgeirsson sagði um sömu sýningu... “sýningin verðskuldar alla athygli”. Sýning EGILS í NORRÆNA HÚSINU 1982 bar yfirskriftina SÉÐ TIL... OG FLEIRA FÓLK. Þar sýndi hann 67 myndir sömuleiðis unnar með blandaðri tækni og var viðfangsefnið fólk og fjölmiðlar.

Halldór Björn Runólfsson sagði meðal annars um sýninguna:

“EGILL er greinilega maður, sem gjörþekkir það efni sem hann vinnur með. Ef fylgja ætti þróun hans frá því seint á síðasta áratug má segja að hann hafi aukið maleríska tækni með því að nota dempaða grátóna, sem deyfa skýra framsetningu á hinum grafísku smáformum”.

Og Gunnar Kvaran sagði um sömu sýningu.

“Verkin eru í tvívídd nema hvað ljósmyndirnar bera sitt innra rými, sem um leið vitnar um sjálfstæðan afmarkaðan tíma. Þannig eru myndirnar stefnumót líkra tíma og rýmis”.

Síðan sýndi EGILL víða, meðal annars í GALLERÍ GANGSKÖR 1986, REGNBOGANUM og SPRON, en fyrstu olíuverkin líta dagsins ljós á stórri yfirlitssýningu í NÝHÖFN Hafnarstræti 18 í febrúar 1992.

Þarna var yrkisefnið orðið matur – einkum þó bláber og gómsætir eftirréttir, eitthvað sem átti eftir að verða annað helsta viðfangsefni EGILS næstu 2 áratugina. Síðar fylgdu sýningar bæði í London og Los Angeles og enn ein “matarsýning” var á veitingastaðnum CAFÉ PRESTO í Kópavogi, sýningin MATARLIST árið 2002.

Eftir þetta haldast í hendur tvö aldeilis ólík viðfangsefni listamannsins. Matarmyndir EGILS eru áfram á borð bornar, en nýtt mótíf skýtur upp kollinum... landslag. Kannski ekki rétt að orða það þannig að EGILL hafi farið að mála "gamaldags" landslag heldur var það birtan í íslensku landslagi, sem fangaði hug hans allan. Einkum voru það lygnir lækir og seitlandi ársprænur sem runnu fram og var EGILL þá nær undantekningarlaust að fanga magískan tímann, þegar ljósaskiptin eiga sér stað og síðasta ljós dagsins sveipar náttúruna óendanlegri dulúð. “Líklega eru það flugferðirnar og ferðalögin með Ómari Ragnarssyni um hálendi Íslands sem kveiktu í mér þessa hlýju og væntumþykju fyrir landinu okkar” segir EGILL.

Þarna hefur EGILL svo setið við og kallað fram sum af sínum umfangsmestu verkum, sem hann sýndi síðast í GALLERÍ TURPENTINE árið 2008 þótt áfram hafi hann ásamt þessum stemningum málað matinn við góða lyst allt til dagsins í dag!

Árið 2017 verður hins vegar algjör viðsnúningur hjá AGLI hvað viðfangsefni varðar, þegar hann fer aftur að mála fólk. En nú er það ekkert venjulegt fólk heldur fígúrur meir í líkingu við það sem yngstu börnin pára, þegar þau fyrst tjá sig með blýanti á blað. Stór höfuð, stundum með augu, nef og munn. Stundum ekki. Ýmist með eða án útlima. Þetta er alls kyns fólk, sem gjarnan hefur í kringum sig eitthvað sem sérstaklega einkennir karakter þess... hluti, alls kyns gögn og form. Þá skjóta anatómískir líkamspartar gjarnan upp kollinum auk þess sem EGILL vitnar víða í það fólk, sem helst hefur inspírerað hann í gegnum tíðina, vini og velgjörðarmenn.

EGILL kallar sömuleiðis fram ýmis minni frá ólíkum listamönnum sögunnar einkum þeim, sem hafa verið helstu áhrifavaldar í lífi hans, mönnum eins og LARRY RIVERS, LAXNESS, DAVID HOCKNEY, GYRÐI ELÍASSYNI, EDVARD GRIEG, JOHN LENNON og MATISSE. Þarna má segja að verði til hin skrautlegasta samkoma þar sem lífskraftur og gleði er við völd og öllum er boðið til veislunnar.

Fyrir þá sem þekkja elstu verk EGILS rifjast hér upp ýmsir gamlir taktar tengdir ameríska popptímabilinu, en hér eru þó á ferðinni miklu kröftugri verk en nokkru sinni fyrr þar sem ákafi og taumlaus leikgleði ráða ferð. Teikningin sterk, en laus þó við alla óþarfa fágun, myndbygging áfram rökrétt þó með glannalegum frávikum, litur óheftur og algjört frelsi þegar kemur að notkun myndflatarins.

Allt eru þetta olíumálverk á striga (flest í stærðinni 1m x 1m) þó með skemmtilegu samspili við alls kyns úrklippur og pappírsriss, sem EGILL ýmist leikur sér að að láta áhorfandanum eftir að uppgötva hvar er, hvað er og hvort er... eða ekki!

En hvað segir EGILL sjálfur um þessar nýjustu myndir og hvert stefnir hann. “Jú, rétt er að þetta eru ansi ólíkar myndir þeim sem ég hef unnið að síðustu 30 árin eða svo, en þegar betur er að gáð eru vinnubrögðin sláandi lík ýmsu því sem ég var að fást við fyrir þann tíma og þá sérstaklega allur hamagangurinn, allt rissið, krassið og krotið".

Þetta var ekki  beint meðvituð breyting heldur gerðist hún óvænt nánast yfir nótt. Annars vegar var harkalega knúið dyra, þegar upgötvaðist að EGILL var haldinn alvarlegum kransæðastíflum í hjarta og varð að bregðast við þeirri meinsemd með tafarlausu inngripi og hins vegar þegar hjartað var orðið alheilt, þá tók það allt í einu óvæntan kipp með þeim afleiðingum, að það yfirfylltist af ást og nýtt og gefandi samband varð til eða eins og EGILL orðar það sjálfur... "hjöktandi hrökk það óvænt í gang og nýtt líf kviknaði. Ástin, sem alls staðar leynist, opnaði allar gáttir og það var meira þannig, að ég lét eftir mér að njóta þess að mála heldur en að ég hefði einhverja meðvitaða hugsun um hvað það var, sem ég væri að mála. Læt öðrum að finna út úr því. Frelsið tók hins vegar við, algjört frelsi... og taumlaus gleðin. Og þar er ég staddur í dag".